mánudagur, desember 12, 2005

Julefrokost

Jólagleði Nokia var á föstudaginn, ríflega 1.200 manna veisla í Øksnehallen. Heljarinnar veislumatur, rís a'la manda, og frír bjór. Ekki amalegt.
Það merkilegast þótti mér samt hversu fjölþjóðlegt þetta allt saman var, djammaði þarna með Ísraela, Marokkóbúa, Frakka, Norðmanni, Mexíkóa, Bandaríkjamanni, helling af Dönum eins og gefur að skilja, og enn einum Íslendingi (og þá er ég einungis að nefna þá sem sátu við mitt borð). Það er nefnilega ekki á hverjum degi sem maður getur spjallað við Ísraela um allt frá Hanukkah til Hitlers, talað við Frakka um matarlist (og komist að því að basically eru franskar konur víst handónýtar í eldhúsinu, sem er ástæða þess að þeir borða sífellt á restauröntum), spjallað við Bandaríkjamann um Bush, Marokkóbúa um triceps og biceps (vei), Norðmann um bjór vs. vín og rökrætt við Íslending um karlmenn í bleikum skyrtum sem drekka Bailey's (það var orðið nokkuð áliðið)... og så videre...
Minnir mann á það að Ísland er ekki miðja alheims, og alls ekkert endilega bezt í heimi...

fimmtudagur, desember 01, 2005

Bangó!

Var að koma af jólabingó Nokia, eða bangói eins og sumir vildu kalla það... Skemmst frá því að segja að ég vann akkúrat ekki neitt, ekkert LCD-sjónvarp, hátalara, myndavél, prentara, vínflöskur, borvél, dvd-upptökutæki eða bíómiða...
Er nú enn harðari á því en áður að það borgar sig ekki að eyða tíma (og peningum) í öll þessi spil þar sem líkurnar eru á móti manni. Nema mögulega af hugsjón, til styrktar góðum málefnum.
Fékk þó grjónagraut og bjór, athyglisverð blanda, en ekkert sem ég mæli sérstaklega með...